Fulltrúalýðræði í kreppu? Greining og viðbrögð

In Málstofur by Margrét Guðmundsdóttir

Í málstofunni er spurt hvort fulltrúalýðræðið sé kreppu, hvað einkenni meginvanda stjórnmála samtímans og hvernig sé best að bregðast við honum. Einkum verður horft til þess hvernig bæta megi fulltrúalýðræðið, starfshætti þess og stofnanir. Fjallað verður um nokkrar lykilhugmyndir sem varða forsendur góðra lýðræðislegra stjórnarhátta og trúverðugleika í stjórnmálum. Færð verða rök fyrir því að brýnt sé að skapa betri skilyrði þess að kjörnir fulltrúar og embættismenn standi almenningi reikningsskil gerða sinna og spurt hvernig þessum málum sé háttað hérlendis.

Grétar Júníus Guðmundsson doktorsnemi kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Vilhjálmur Árnason


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 15.00-16.30

Því er oft haldið fram að stjórnmálin séu í kreppu og mörg einkenni þess hafa verið áberandi hérlendis eftir hrun. Til að bregðast við þeim hefur ein megináherslan hvílt á aukinni aðkomu borgaranna að pólitískum ákvörðunum. Þar eð fulltrúalýðræðið hafi brugðist verði að leita verði betri leiða til að tryggja almannahagsmuni og almannavilja með beinu lýðræði. Á sama tíma hafa efasemdir um ágæti beins lýðræðis verið áberandi í fræðilegri umræðu. Til að ræða þetta mun ég taka mið af greiningu þýska félagsfræðingsins Claus Offe á „kreppu fulltrúalýðræðisins“ og vanda beins lýðræðis og máta hana við stjórnmálaástandið hérlendis. Reifuð verða nokkur vandkvæði á því að sjá aukna aðkomu borgaranna að ákvörðunum sem gagnleg viðbrögð við vanda stjórnmálanna í samtímanum. Færð verða rök fyrir því að aðrar leiðir séu vænlegri til að bæta lýðræðið og byggi ég þar á hugmyndum af ætt rökræðulýðræðis, einkum þeim þáttum sem nýta má til að styrkja gangverk fulltrúalýðræðisins og stofnana þess.

Ábyrgð er hugtak sem gjarnan glymur í opinberri umræðu. Allt frá dögum hrunsins haustið 2008 hefur ýmist verið vísað til eða kallað eftir ábyrgð. Hrunið markaði þáttaskil. Þá hrundi íslenska fjármálakerfið og mælingar sýna að þá hrundi einnig traust almennings á stofnunum samfélagsins. Á eftirhrunsárunum hafa opinberar rannsóknir grafist fyrir um orsakir hrunsins og fjöldi einstaklinga sætt refsiábyrgð. Gert var ráð fyrir því að þessar aðgerðir stjórnvalda myndu auka traust almennings á stofnunum samfélagsins á ný. En allt virðist koma fyrir ekki. Traust almennings á stofnunum samfélagsins hefur ekki verið endurheimt. Þessi rannsókn beinir athyglinni að sambandinu milli ábyrgðar og trausts, en rannsóknir sýna að þetta samband er ekki einhlítt. Rannsóknin bendir til þess að þær upplýsingar um stjórnmál og viðskipti sem komið hafa fyrir almenningssjónir á umliðnum árum hafi vakið meðvitund almennings um birtingarmyndir siðferðis- og trúnaðarbrests og þannig gert almenning næmari fyrir framkomu og hegðun stjórnmála- og viðskiptaelítunnar en áður. Þrátt fyrir skipulagðar aðferðir stjórnvalda til að auka traust með ábyrgð virðist gjá hafa myndast milli almennings og stjórnmálamanna um það hvað traustvekjandi hegðun felur í sér. Því má spyrja hvað þarf til svo ábyrgð vekji almennt traust á stofnunum samfélagsins á Íslandi?

Innviðir siðferðisins eru margslungnir. Skyldur leika þar stórt hlutverk og hafa mikilvæg tengsl við þá siðferðilegu ábyrgð sem við berum til dæmis í ólíkum aðstæðum mismunandi hlutverka. Allir innviðir siðferðisins eru óáþreifanlegir og umdeildir sem gerir það að verkum að við eigum það til að þræta um tilvist ákveðinna skyldna ef þær koma okkur illa. Til að minnka ágreining hefur sú leið verið farin að formgera tilvist skyldna með skilgreiningum og heitum og er svokölluð „umboðsskylda“ (e. fiduciary duty) gott dæmi um það. Á Íslandi hefur þetta heiti verið að festa sig í sessi að undanförnu eins og sjá má á útgáfu nýlegs smárit um umboðsskyldu og fjárfestingar. Í þessum fyrirlestri verður skoðað hvort hugtakið geti reynst hjálplegt til að greina ábyrgð fulltrúa almennings og geti þar af leiðandi stutt við málefnalega umræðu um þá ábyrgð sem þeir bera í störfum sínum.

Deila færslunni