Margbreytileiki mennskunnar

In Málstofur by Margrét Guðmundsdóttir

Í málstofunni verður fjallað um tengsl mennsku, særanleika og ófullkomleika. Fyrirlesarar munu í erindum sínum draga fram hvernig særanleiki okkar og ófullkomleiki hefur áhrif á annað fólk. Velt verður upp spurningum einsog hvað það merki að manneskja sé gölluð eða skert og hvernig við notum þessi hugtök til að meina ákveðnum hópum fólks að fæðast, eiga í nánu sambandi við aðra manneskju og eiga börn. Jón Ásgeir Kalmansson mun í fyrirlestri sínum kanna hvernig hugmyndir um þýðingu mannlegra takmarkana og særanleika geta birst í siðfræði. Ástríður Stefánsdóttir mun ræða um fósturskimanir og þau undirliggjandi gildi sem drífa þær áfram. Farið verður yfir þá afstöðu til fósturgreininga sem birtist hjá fagfólki í heilbrigðisþjónustu annars vegar og hjá fullorðnum einstaklingum með Down´s heilkenni hins vegar. Guðrún Stefánsdóttir mun ræða um áhrif mannkynbótastefnunnar á hugmyndir okkar um mennskuna. Að lokum mun Kristín Björnsdóttir fjalla um kynverund og fólk með þroskahömlun og beina sjónum sérstaklega að þeim sem þurfa mikinn stuðning í daglegu lífi. Fjallað verður um kynverund í ljósi mennsku og meðfæddrar göfgi mannsins. Greint verður frá niðurstöðum rannsóknar sem fjallar um líf ungs fólks með þroskahömlun og því lýst hvernig viðhorf starfsfólks hafa áhrif á mennsku þeirra og upplifun sem kynverur.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-17.00

Málstofustjóri: Ástríður Stefánsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 15.00-17.00

Deila færslunni