Margbreytileiki mennskunnar

In Málstofur by Margrét Guðmundsdóttir

Í málstofunni verður fjallað um tengsl mennsku, særanleika og ófullkomleika. Fyrirlesarar munu í erindum sínum draga fram hvernig særanleiki okkar og ófullkomleiki hefur áhrif á annað fólk. Velt verður upp spurningum einsog hvað það merki að manneskja sé gölluð eða skert og hvernig við notum þessi hugtök til að meina ákveðnum hópum fólks að fæðast, eiga í nánu sambandi við aðra manneskju og eiga börn. Jón Ásgeir Kalmansson mun í fyrirlestri sínum kanna hvernig hugmyndir um þýðingu mannlegra takmarkana og særanleika geta birst í siðfræði. Ástríður Stefánsdóttir mun ræða um fósturskimanir og þau undirliggjandi gildi sem drífa þær áfram. Farið verður yfir þá afstöðu til fósturgreininga sem birtist hjá fagfólki í heilbrigðisþjónustu annars vegar og hjá fullorðnum einstaklingum með Down´s heilkenni hins vegar. Guðrún Stefánsdóttir mun ræða um áhrif mannkynbótastefnunnar á hugmyndir okkar um mennskuna. Að lokum mun Kristín Björnsdóttir fjalla um kynverund og fólk með þroskahömlun og beina sjónum sérstaklega að þeim sem þurfa mikinn stuðning í daglegu lífi. Fjallað verður um kynverund í ljósi mennsku og meðfæddrar göfgi mannsins. Greint verður frá niðurstöðum rannsóknar sem fjallar um líf ungs fólks með þroskahömlun og því lýst hvernig viðhorf starfsfólks hafa áhrif á mennsku þeirra og upplifun sem kynverur.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 15.00-17.00

Málstofustjóri: Ástríður Stefánsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 15.00-17.00

Allt frá Þalesi, fyrsta heimspekingnum sem sögur fara af, hefur heimspeki og heimspekingum verið legið á hálsi fyrir að hafa fyrst og fremst áhuga á hinu háleita, eilífa og fullkomna, en síður á mannlegum takmörkunum, særanleika og breyskleika. Þótt þessi gagnrýnin feli í sér sannleikskorn er málið ekki alveg svo einfalt. Þetta sést ef til vill best í sjálfu nafni heimspekinnar, philo-sophia – eða viskuást. Eins og önnur ást gefur viskuást í senn til kynna aðlöðun að og berskjöldun gagnvart veruleika sem er ekki á manns valdi. Enginn maður er vitur, enginn þekkir fyllilega hið góða, og sannleikurinn er ekki á mannlegu forræði, ekki frekar en dauðinn. Heimspeki felur því meðal annars í sér þá sýn á okkur mannfólkið að við séum í grundvallar atriðum berskjaldaðar verur, ekki aðeins sem líkamlegar, dauðlegar verur heldur einnig sem andlegar og siðferðilegar verur. Markmið heimspekilegrar yfirvegunnar er ekki síst í því fólgið að gera sér í hugarlund og viðurkenna í hjarta sér þessa margþættu mannlegu berskjöldun og fátækt andspænis því sem er. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessa heimspekilegu viðleitni til að gera sér sinn eiginn særanleika, og særanleika annarra, í hugarlund, og erfiðleikana sem í því eru fólgnir.

Mannkynbótastefnan átti frá því lok 19. aldar mikinn þátt í að móta neikvæð viðhorf í garð jaðarhópa eins og fólks með þroskahömlun. Í mannkynbótastefnunni birtist fólk með þroskahömlun, eða „fávitar“ eins og fólkið var kallað á þeim tíma, sem ógn við hinn hreina kynstofn og því var litið svo á að það væri hættulegt, afbrigðilegt og líklegt til að valda úrkynjun. Þessi afstaða átti mikinn þátt í að fólk með þroskahömlun var einangrað á stofnunum og útilokað frá samfélagsþátttöku mikinn hluta 20. aldar, mennska þeirra var dregin í efa og algengt var að konur væru sendar í ófrjósemisaðgerðir án vitundar og vilja. Þó að mannkynbótastefnan hafi formlega liðið undir lok á þriðja áratug 20. aldar gætir áhrifa hennar enn, t.d. í tengslum við umræðuna um fósturgreiningar og snemmómskoðun. Í erindinu er byggt á nýlegri rannsókn um sjálfræði og fólk með þroskahömlun. Sjónum verður sérstaklega beint að konum með þroskahömlun sem fæddar eru á fyrri helmingi 20.aldar og fjallað um áhrif mannkynbótastefnunnar á líf þeirra og með hvaða hætti þær hafa brugðist við neikvæðum afleiðingum hennar.

Í erindinu verður farið yfir tilgang læknisfræðilegra skimana og skoðað hvernig fósturskimanir og leit að Down’s heilkenni falla inn í þá mynd. Jafnframt verða rakin þau rök sem slík leit hvílir á. Vakin verður athygli á því gildismati sem er þessum rökum til grundvallar og dregið fram hvernig þau tengjast almennt rökum fyrir læknisfræðilegri meðferð. Í ljósi þeirra verður skoðuð sú orðræða sem sjá má hjá fólki með Down´s heilkenni og fjölskyldum þeirra. Þar verður sýnt hvernig þau andæfa þessum rökum og leitast í sífellu eftir að réttlæta tilvist sína.

Í þessu erindi verður fjallað um kynverund og fólk með þroskahömlun og sjónum beint sérstaklega að þeim sem þurfa mikinn stuðning í daglegu lífi. Fjallað verður um kynverund sem heildar upplifun af því að vera kynvera og hún skoðuð í ljósi mennsku og meðfæddrar göfgi mannsins. Greint verður frá niðurstöðum rannsóknar sem fjallar um líf ungs fólks með þroskahömlun og því lýst hvernig viðhorf starfsfólks hefur áhrif á mennsku þeirra og upplifun sem kynverur. Dæmi verða tekin úr daglegu lífi þessa hóps um það hvernig valmöguleikar þeirra eru skertir. Skoðað verður hvernig þær takmarkanir hafa áhrif á kynverund þeirra.

Deila færslunni