Merking, formgerð og málhafar í táknmálum

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Málstofan fjallar um táknmál frá ýmsum sjónarhornum. Rætt verður um frumlög og andlög í táknmálum almennt og færð rök fyrir því að táknmál hafi hvorttveggja þótt ekki sé hægt að beita nákvæmlega sömu setningafræðiprófum á táknmál og raddmál. Þá verður farið yfir í merkingarfræði og rætt um rannsókn á litaorðum. Af einhverjum ástæðum virðast mismunandi mál hafa ólíkan litaorðaforða en niðurstöður úr rannsókn á íslenska táknmálinu geta leitt í ljós hvort menningin hefur áhrif á þennan orðaforða. Að lokum verður farið inn á svið félagsmálfræði og leitað að hinum eina sanna málhafa. Málsamfélag íslenska táknmálsins er lítið og um margt sérstakt vegna þess að innflytjendum sem hafa erlent táknmál að móðurmáli hefur fjölgað og sárafá börn sem fæðast heyrnarlaus eiga foreldra sem hafa táknmál að móðurmáli. Þetta flækir vinnu rannsakenda sem þurfa að nýta sér dóma og þekkingu málhafa í málfræðirannsóknum.

Til að óska eftir táknmálstúlkun á málstofuna sendið póst til Rannveigar Sverrisdóttur,
rannsve@hi.is, fyrir fimmtudaginn 8. mars.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 205 í Lögbergi
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Rannveig Sverrisdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 13.00-14.30

Táknmál eru ólík raddmálum að því leyti að þeim er miðlað með hreyfingu handa og ýmiss konar látbrigðum. Þar að auki hafa táknmál ekki öll þau kerfisorð og málfræðilegu formdeildir sem eru afleiðing margra alda málbreytinga í raddmálum. Samt sem áður gera margir fræðimenn ráð fyrir því að táknmál hafi í meginatriðum sömu setningafræðilegu formgerð og raddmál. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um eitt álitamál í þessu sambandi en það snýr að málfræðihlutverkum. Færð verða rök fyrir því að táknmál geri kerfisbundinn greinarmun á frumlögum og andlögum rétt eins og raddmál þótt ekki sé hægt að beita nákvæmlega sömu frumlags- og andlagsprófum fyrir táknmál og raddmál og margt tengt þessum málfræðihlutverkum krefjist frekari rannsókna.

Litaorð eru sérstæður merkingarflokkur. Það sem við köllum liti eru viðbrögð taugakerfis okkar við ljósi sem við tökum inn í gegn um augun, en ljós hefur engan eiginlegan lit. Þrátt fyrir svo einsleit skynfæri sem við höfum virðist sem svo að mismunandi mál hafi mjög ólíkan litaorðaforða, og spurningin er hvað veldur því. Einn möguleiki er að það sé málið sjálft og því fylgjandi menningin. Til að rannsaka þetta er nærtækast að skoða íslenskt táknmál, en það er, eins og önnur táknmál, sérstætt; bæði sem mál sem talað er með höndum og numið með augum, en ekki með rödd og eyrum eins og talmál, og sem menningarveita sem ekki fer í gegn um foreldra heldur oftast í gegn um jafningja og sérstaka kennara. Hafi málið og menningin áhrif, ætti það að sjást greinilega í kortlagningu málhafa íslensks táknmáls á litrófinu.

Málvísindamenn stóla gjarnan á dóma þeirra sem hafa málið, sem til rannsóknar er, að móðurmáli og treysta innsæi og tilfinningu þeirra fyrir því hvað er gott mál og miður gott. Rannsaki málvísindamaður eigið móðurmál getur hann einnig tekið mið af máltilfinningu sinni. Meirihluti þeirra sem leggja stund á táknmálsrannsóknir fást við mál sem ekki er þeirra móðurmál og því vega dómar móðurmálshafa þungt. Í rannsóknum á ASL eru þeir einir taldir dómbærir málhafar sem alist hafa upp með táknmál frá fæðingu, þ.e. döff sem eiga döff foreldra, sem eru innan við 10% málhafanna og því er þessi hópur „sannra málhafa“ mjög lítill. Costello o.fl . (2008) hafa fært rök fyrir því að í litlum táknmálssamfélögum sé þessi tala enn lægri og því ekki hægt að rökstyðja að þeir einir séu dómbærir málhafar sem koma úr döff fjölskyldum. Í táknmálssamfélaginu í Baskahéruðum Spánar var þróuð aðferðafræði þar sem félagsmálfræðilegir þættir eru notaðir til að meta hvort táknarar geti talist móðurmálshafar (e. native signer). Íslenskt táknmálssamfélag getur tekið mið af þessari aðferðafræði ef litið er til stærðar þess. Hins vegar eru innflytjendur sífellt að verða stærri hluti málssamfélagsins og margir þeirra sem hingað hafa flust koma úr döff fjölskyldum. Sú staðreynd að döff upplifa sig sem þjóð þvert á landamæri vekur upp spurninguna hvort það að tilheyra „réttum“ menningarhópi sé áhrifaþáttur þegar mat er lagt á hæfi málhafa (sbr. Kramsch 1998).

Deila færslunni