Nýjar hinsegin rannsóknir: kvikmynd, dagbók, heimildaleit

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Á undanförnum misserum hafa rannsóknir sem beita kenningum hinsegin fræða við greiningu á viðfangsefnum verið nokkuð áberandi hér á landi og jafnvel mætti tala um hinsegin vakningu innan hugvísinda. Í málstofunni verða kynnt þrjú ný verkefni á þessu sviði sem fjalla m.a. um kvikmyndir, dagbókaskrif og túlkun sagnfræðilegra heimilda. Athyglinni verður beint að því hvernig hinsegin fræði snúast fremur um aðferðir og nálgun en viðfangsefni og hvernig sú nálgun getur af sér annars konar þekkingu en hægt er að kalla fram með öðrum leiðum. Spurt verður spurninga á borð við: Hvaða áhrif hefur nærvera trans karlmanns á smábæinn þar sem hann býr? Hvernig nýtast kenningar hinsegin fræðimanna við greiningu á hamingju? Hvaða merkingu getum við lagt í tilfinningaþrungin ástarorð þjóðsagnasafnarans Ólafs Davíðssonar til Geirs Sæmundssonar? Hvaða ályktanir drögum við af sögum um konur sem sagðar voru graðar, gengu í buxum eða sváfu saman? Hvernig fjöllum við um hinsegin tilveru á tímum þegar sjálfsmyndarhugtök á borð við homma, lesbíu og samkynhneigð voru ekki til?

Ásta Kristín Benediktsdóttir kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 10.30-12.00

Málstofustjóri:
Ásta Kristín Benediktsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 10.30-12.00

Árið 1998 kom út heimildarmyndin The Brandon Teena Story um líf Brandons Teena og morðið á honum og tveimur öðrum, Phillip DeVine og Lisu Lambert. Myndin er erfið áhorfs enda er viðfangsefnið þess eðlis; líf Brandons fellur óhjákvæmilega í skuggann á ógurlega grimmdarverkinu sem batt enda á það. Eftir stendur þó frásögn af lífi einstaklings sem var óvenjulega heillandi og hafði djúpstæð áhrif á þá sem á vegi hans urðu. Í fyrirlestrinum er heimildarmyndin skoðuð sérstaklega sem melódrama sem dregur fram hvernig saga Brandons hefði getað farið á annan og betri veg, auk þess sem hinsegin kenningum Jacks Halberstam og Eve Sedgwick verður beitt til að varpa ljósi á þær hugmyndir um karlmennsku sem ríktu í því smábæjarsamfélagi sem Brandon tilheyrði, í miðvestri Bandaríkjanna.

Það er jafnan talið bjóða upp á tímaskekkju að beita sjálfsmyndarhugtökum eins og “samkynhneigð” á fjarlæga fortíð sem ekki þekkti slík hugtök. Fræðimenn innan hinsegin fræða hafa þó þróað leiðir til að fjalla um hinsegin tilveru án þess að reiða sig á sjálfsmyndarhugtök. Þessar aðferðir mótuðust út frá fræðilegum deilum innan fornfræði um hvernig bæri að skilja og ræða um samkynja kynlíf og langanir í Grikklandi og Róm til forna. Kynferðishugmyndir fornaldar eru á aðra höndina óhugnanlegar og framandi en geta á hina höndina verið frelsandi fyrir undirokaða hópa að samsvara sig við. Í þessum fyrirlestri verða fyrrnefndar deilur raktar, hugmyndir deilenda kynntar og loks verður litið á hvernig læra megi af umræðunni í samhengi við eina merkustu íslensku heimildina um hinsegin ástir frá 19. öld, dagbók Ólafs Davíðssonar (1862 – 1903).

Sagnfræðingar sem stunda rannsóknir á sviði kynjasögu hafa bent á fjölmargar stofnanalegar hindranir sem verða á vegi kynjasagnfræðingsins og gera það að verkum að heimildir um og eftir konur eru vandfundnari en heimildir um og eftir karla. Ritstjórar nýlegs greinasafns um hinsegin sögu á Íslandi fundu áþreifanlega fyrir kynjaslagsíðunni í ritstjórnarferlinu, sem gerði það að verkum að í bókinni er mun oftar fjallað um samkynhneigða karla en fólk af öðrum kynjum og kynhneigðum. Til að mæta þeim áskorunum sem einkenna rannsóknir á hinsegin kynverund kvenna settu ritstjórarnir á fót heimildasöfnunarverkefni sem miðar að því að safna saman hvers konar heimildum um hinsegin konur og gera þær aðgengilegar fræðimönnum og öðrum áhugasömum einstaklingum. Í fyrirlestrinum fjallar einn ritstjóranna um tilurð og framkvæmd verkefnisins sem nú er í fullum gangi. Farið verður yfir þann ávinning sem þegar er orðinn af verkefninu og greint frá nokkrum þeirra uppgötvana sem þegar hafa átt sér stað. Loks verður fjallað um ýmis álitamál sem hafa komið upp við framkvæmd verkefnisins og rætt um áskoranir sem fylgja því að leita að hinsegin konum á tímabilum þegar hugtök eins og „hinsegin“ eða „samkynhneigð“ voru ekki til og samkynja þrá lýsti sér á annan hátt en hún gerir í dag.

Deila færslunni