Reykjavík árið 1918: Sjónarhorn persónulegra heimilda

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Á málstofunni verður litið á daglegt líf í Reykjavík árið 1918 og fjallað um hvernig stórviðburðir ársins sem og hversdagslegir höfðu áhrif á bæjarbúa með því að skoða persónulegar heimildir þeirra sem finna má í bréfum og dagbókum sem varðveitt eru á Kvennasögusafni Íslands og handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Meðal umræðuefna eru vel þekktir atburðir eins og frostaveturinn, Kötlugos, spænska veikin, vöruskortur vegna heimsstyrjaldarinnar, en einnig minna þekktir sem höfðu áhrif á líf fólks með einum eða öðrum hætti. Daglega fram í júní útvarpar Rás 1 upplestri úr þessum heimildum í hádeginu og veitir þannig innsýn í daglegt líf Reykvíkinga fyrir 100 árum. Verkefnið er hluti af Listahátíð í Reykjavík 2018 (R1918).

Erla Dóris Halldórsdóttir kynnir fyrirlesara og stjórnar umræðum.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 052 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-16.30

Málstofustjóri:
Bragi Þorgrímur Ólafsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 13.00-14.30

Árið 1918 var viðburðaríkt og hefur orðið Íslendingum minnisstætt – fimbulkuldi í ársbyrjun, Kötlugos og mannskæð inflúensa um haustið. Hversu mikil áhrif höfðu þessir atburðir á líf fólks? Er hægt að leggja þá að jöfnu? Getur verið að áhrifin hafi verið ofmetin? Þetta var líka árið sem Ísland varð fullvalda ríki. Hverju breytti fullveldið? Var það stærsti sigurinn í sjálfstæðisbaráttunni? Loks lauk stríðinu mikla síðla árs en stríðsárin höfðu verið íslensku þjóðinni erfið. Hvað bar raunverulega hæst á árinu 1918? Og hvaða mynd blasir við af íslensku samfélagi þegar litið er fram hjá stórviðburðum og áföllum?

Í Handritasafni Landsbókasafns er varðveitt einkaskjalasafn Steindórs Björnssonar (1885-1972) leikfimikennara. Hluti þess er umfangsmikið safn fjölskyldubréfa þar sem fjöldi karla og kvenna, ungra sem aldna, eiga bréf, hvort heldur sem ritarar eða viðtakendur. Lauslega áætlað eru skráðir bréfritarar rúmlega 650, langflest bréfanna eru til Steindórs, foreldra hans og systkina en auk þess hafa varðveist einstök bréf til fjölda annarra. Árið 1918 eru foreldrar Steindórs búsettir að Gröf í Mosfellssveit, síðar nefnt Grafarholt, þrjár af systrum hans búa saman á Kirkjustræti en Steindór og Guðrún kona hans búa á Grettisgötu ásamt fjölskyldu Guðrúnar og föðursystur Steindórs. Fjöldi bréfa og skilaboða, þar á meðal frá árinu 1918, fara á milli fjölskyldumeðlima og vina sem margir hverjir eru búsettir á því svæði sem nú tilheyrir miðbæ Reykjavíkur. Hvaða mynd gefa þessi tíðu bréfasamskipti þeirra á milli okkur af daglegu lífi Reykvíkinga árið 1918 og ekki síst af þeim stórviðburðum sem þá urðu, frostavetrinum mikla, Kötlugosinu og spænsku veikinni?

Dýrleif Árnadóttir (1897-1988) er þekktust fyrir þátttöku sína í Kommúnistaflokki Íslands (1930-1938) en hún var meðal stofnenda hans. Í þessu erindi verður varpað ljósi á líf hennar sem ungrar konu í Reykjavík árið 1918. Það ár stóð Dýrleif á tvítugu, las fyrir stúdentspróf og hugaði að framtíð sinni. Hvaða möguleika hafði hún til að móta þrár sínar og langanir og fylgja þeim eftir? Til að svara þeirri spurningu verður stuðst við sendibréf móður hennar og móðurömmu sem eru varðveitt á Kvennasögusafni Íslands. Þannig fléttast þeirra saman saga þriggja kynslóða kvenna sem búa á sama heimili í Reykjavík. Einnig verða til athugunar gögn nemendafélags Lærða skólans, sem varðveitt eru á handritasafni Landsbókasafns  Íslands – Háskólabókasafns, og segja sögu nemendahópsins sem Dýrleif tilheyrði.

10. mars kl. 15.00-16.30

Hannes Thorsteinson (1863–1931) var búsettur í Austurstræti 20 alla sína ævi. Hann starfaði sem lögfræðingur í Íslandsbanka og varð síðar bankastjóri. Þá var hann brunamálastjóri í Reykjavík um skeið og formaður Garðyrkjufélags Íslands. Hannes hélt dagbók á árunum 1901–1931 þar sem hann fjallar um eigið líf en skrifar einnig um atburði í samfélaginu. Í erindinu verður fjallað um dagbók hans frá árinu 1918. Kannað verður hvaða mynd Hannes dregur upp af samfélaginu í Reykjavík á þessu merkisári en einnig verður skoðað hvernig hann fjallar um atburði í sínu persónulega lífi.

Í dagskrárliðnum R1918 hafa hundrað ára gamlir textar fengið nýja rödd sem útvarpað er í hádeginu á hverjum degi frá 1. janúar fram í júní 2018. Textarnir eru unnir upp úr skjölum varðveittum á  handritasafni og Kvennasögusafni í Landsbókasafni Íslands og er verkefnið í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík og RÚV ohf.

Í erindinu verður fjallað um hráefnið á bak við upplestrana í R1918 – sjálf skjölin. Fyrirbærið einkaskjalasafn verður skoðað og þýðing þess fyrir sagnaritun, varpað verður ljósi á hvernig skjöl berast skjalasöfnum og tölfræði skoðuð um bæði fólkið bak við söfnin og skjalasöfnin sjálf. Einnig verður litið á hvernig fólkið sem skapaði skjölin, í flestum tilfellum bréfritarar, litu á eigin framlag til heimildaforða sagnfræðinganna og annarra fræðimanna sem gera sér mat úr þessum svipmyndum liðins tíma.

Þann 14. október 1959 afhenti Sigurlaug Lárusdóttir (1894 – 1978) handritadeild Landsbókasafns gögn um starfsemi Hjúkrunarnefndar Reykjavíkur. Sigurlaug var tengdadóttir Lárusar H. Bjarnasonar prófessors (1866-1934) fv. formanns nefndarinnar. Nefnd þessi var sett á fót í skyndi í nóvember 1918 til að bregðast við neyð vegna spænsku veikinnar sem þá herjaði á íbúa Reykjavíkur og víðar. Nefndin lagðist strax í ítarlega könnun á ástandinu í bænum og gekk fólk á hennar vegum hús úr húsi til að kanna heilbrigði bæjarbúa. Í erindinu verður ástandinu í Reykjavík lýst eins og það kemur fram í gögnum nefndarinnar.

Deila færslunni