Safnkostir og ókostir: Birtingarmyndir „safnsins“ í bókmenntum og listum

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Söfn geta verið af margvíslegri gerð allt frá virðulegum opinberum skjalasöfnum til samtínings og sitthvaðs á háaloftum og í geymslum, í skýjum og á hörðum diskum. Af því leiðir að það eru ekki einungis skjalaverðir og sagnfræðingar sem fást við söfn, heldur eru þau hluti af lífi okkar allra á einhvern máta, mismunandi heilleg; molar og brot af fortíð. Rithöfundar og listamenn hafa farið fjölmargar leiðir að því að leika sér með söfn og söfnun og í þessari málstofu veltum við upp spurningum á borð við: Hverju var Tómas Jónsson að safna í sinni metsölubók? Hvað verður um opinber skjöl þegar listamenn umbreyta þeim? Hvernig verða söfn hluti af sjálfs/ævisögum og hvaða sögu segja þau okkur?

Haukur Ingvarsson doktorsnemi kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 102 í Gimli
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Gunnþórunn Guðmundsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 13.00-14.30

Tómas Jónsson Metsölubók (1966) eftir Guðberg Bergsson vakti mikla athygli á sínum tíma og er eitt af mikilvægustu verkum íslenskra nútímabókmennta. Textinn er samansafn af skrifum Tómasar úr minnisbókum hans og verkinu er ritstýrt af Hermanni eða Svani og er því ritskoðað úrval af pælingum Tómasar um sjálfan sig, samtíma og samferðarmenn. En jafnframt er verkið írónísk sýnisbók yfir mismunandi rithefðir 20. aldar. Í fyrirlestrinum verður rýnt í safnkostinn; minningarnar og það sem vantar, með hliðsjón af minnisfræðum og hugmyndum um arkívið.

Í erindinu verður fjallað um ljósmyndaverk Unnars Arnar Auðarsonar, „Vegsummerki“ í ljósi vofufræða og kenninga um menningarlegt minni. Verkið var hluti af sýningunni Brotabrot úr afrekasögu óeirðar: II.hluti í sýningarsal ASÍ árið 2014 og beinir sjónum að þýðingu arkífsins, safnageymslunnar, fyrir hið opinbera menningarlega minni. Listamaðurinn stillir saman myndum úr geymslum ólíkra safna og hvetur til vangaveltna um menningarlegar ímyndir og þjóðlegar sjálfsmyndir; hvernig ljósmyndum er beitt til að styðja við minni og sjálfsmynd, og sömuleiðis hvernig þær geta grafið undan ímyndarsköpun.

Í sjálfsævisögulegum skrifum má víða finna lýsingar á því þegar höfundurinn kemst í tæri við arfleifð fjölskyldunnar, safnið, arkívið. Bréf, ljósmyndir, dagbækur, persónulegir pappírar o.fl. o.fl. geta veitt höfundinum dýramæta – eða flókna og erfiða – innsýn í líf forfeðranna. En hvers konar söfn eru þetta og hver hefur aðgang að þeim? Hvers konar minningar birtast í þessum söfnum? Í fyrirlestrinum verður litið til ýmissa dæma úr sjálfsævisögum þar sem safnið kemur við sögu, einkum í þeim tilfellum þar sem safnið segir (eða segir ekki sögu) þeirra sem hafa verið jaðarsettir, hafa ekki haft rödd eða sjálfstæða sögu og í þeim tilfellum þar sem safnið afhjúpar það sem hefur verið falið og gleymt í fjölskyldusögunni; týnda leyndarmálið sem höfundurinn þarf að takast á við.

Deila færslunni