


Í þessum fyrirlestri skoðum við formlegt og merkingarlegt samræmi í íþróttamáli í setningum tengdum með tengingunum og og en. Við athugum samræmi við heiti íþróttaliða sem eru að forminu til eintöluorð eða skammstafanir í beinum textalýsingum kappleikja.
Í (1) má tala um formlegt samræmi þar sem persónubeygða sögnin lagar sig að tölu frumlagsins. Í (2) er samræmið aftur á móti merkingarlegt; þarna er um að ræða lið kvenna og virðist vísað til þeirra þegar fleirtalan á persónubeygðu sögninni er notuð og kvenkyn fleirtölu á lýsingarorðinu (dæmi (2) er tekið úr beinni textalýsingu).
(1) Eftir hræðilega byrjun kom(et.) ÍBV sterkt(hk.et.) til baka
(2) Eftir hræðilega byrjun komu(ft.) ÍBV sterkar(kvk.ft.) til baka
Við skoðum svona samræmi nánar í samtengdum setningum þar sem frumlagið í fyrri setningunni er heiti á liði sem er formlega í eintölu eða skammstöfun en tengieyðing verkar í síðari setningunni þannig að frumlagið er samvísandi frumlagi fyrri setningarinnar en látið ósagt. Þá koma fjórir möguleikar til greina m.t.t. tölusamræmis við persónubeygða sögn en eingöngu þrír þeirra virðast notaðir í reynd (dæmi (4) er tekið úr beinni textalýsingu).
(3) Stjarnan byrjar(et.) af krafti og __ geysist(et.) fram völlinn
(4) Stjarnan byrjar(et.) af krafti og __ geysast(ft.) fram völlinn
(5) Stjarnan byrja(ft.) af krafti og __ geysist(et.) fram völlinn
(6) Stjarnan byrja(ft.) af krafti og __ geysast(ft.) fram völlinn
Í (3) er formlegt eintölusamræmi milli frumlagsins og persónubeygðu sagnarinnar (Stjarnan byrjar) og í hliðtengdu setningunni er líka hægt að tala um formlegt samræmi þar eð ósýnilega frumlagið (merkt með undirstriki) er samvísandi við Stjarnan. Í (4) er aftur á móti formlegt samræmi í fyrri setningunni en merkingarleg fleirtala í þeirri síðari; í (5) er merkingarlegt samræmi í fyrri setningunni en formlegt í þeirri síðari; og í (6) er merkingarlegt samræmi í báðum setningum.
Við athugun á beinum textalýsingum á netinu kemur í ljós að talsvert er um dæmi á borð við (3) og (4), nokkuð um dæmi af gerðinni í (6) en lítið sem ekkert um dæmi eins og (5) þar sem merkingarlegt samræmi er í fyrri setningunni en formlegt í þeirri síðari. Við rýnum í þessar niðurstöður og reynum að skýra hvernig á því stendur að nær ekkert er um dæmi eins og (5); við teljum það enga tilviljun en svona ¾-mynstur eru vel þekkt í ýmsum tungumálum. Ef formlegt samræmi er notað í fyrri setningunni er tvenns konar samræmi í boði þegar ósagða frumlagið í samtengdu setningunni er túlkað, formlegt eða merkingarlegt. Ef merkingarlegt samræmi verður ofan á í fyrri setningunni eru upplýsingar um formlega eiginleika frumlagsins hins vegar ekki aðgengilegir í síðari setningunni.