Siðbót á 21. öld?

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Árið 2017 var þess minnst að 500 ár voru liðin frá því að Lúther hengdi upp tesurnar sínar 95 og kallaði eftir siðbót í Rómarkirkjunni. Sú hreyfing sem þá fór af stað átti eftir að setja mark sitt á trúar- og kirkjulíf í Evrópu og víðar um heim en jafnframt á menningu, samfélag og jafnvel stjórnmál. Í tilefni þessara tímamóta var áhersla lögð á að rannsaka og ræða áhrif siðbótarinnar bæði í sögu og samtíð. Það var m.a. gert í þverfræðilegu rannsóknaverkefni við Háskóla Íslands um áhrif siðaskiptanna á íslenska kristni, samfélag og menningu, (2017.is)

Í þessari málstofu verður sérstaklega horft til dagsins í dag og spurt hvort enn sé þörf á siðbót í okkar íslenska samhengi í upphafi 21. aldar. Lögð verður áhersla á málefni og vanda sem við stöndum frammi fyrir og kalla hugsanlega á siðbót, í merkingunni nýjan hugsunarhátt, eða umsköpun og umbreytingu á ríkjandi gildum og hugmyndum, m.a. hlýnun jarðar og baráttu kvenna gegn kynbundnu ofbeldi.

Auður Styrkársdóttir kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 201 í Lögbergi
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Arnfríður Guðmundsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 13.00-14.30

Á s.l. ári var þess minnst að 500 ár voru liðin frá því Marteinn Lúther hóf siðbótarstarf sitt. Með siðbót er þá átt við trúar- og guðfræðilega gagnrýni hans á miðaldakirkjuna. Áhrif þessarar gagnrýni tóku fljótt að segja til sín á hinu pólitíska sviði þegar veraldleg stjórnvöld tóku að lögleiða nýja kirkjuskipan sem byggð var á guðfræði Lúthers (siðaskipti) og líf fólks í ríkjum þeirra tók að mótast af henni (siðbreyting). Líta má á siðaskiptin sem bráð áhrif siðbótarinnar en siðbreytinguna sem langtímaáhrif hennar.

Hér er þó að fleiru að hyggja þegar sérstaklega er hugað að áhrifum siðbótarinnar hér á landi sérstaklega en það verður viðfangsefni þessa fyrirlestrar. Glímt verður við spurningar á borð við hvaða áhrif siðbótarsjónarmið Lúthers höfðu í gamla íslenska bændasamfélaginu en jafnfram hvort siðbótin hafi einhver áhrif í íslensku nútímasamfélagi þegar kirkjumálunum í þröngri merkingu sleppir.

Með því að játa trú á Guð sem er „skapari himins og jarðar,“ er staðfest sú grundvallarafstaða kristinnar trúar að efnið sé gott. Í gyðing-kristinni trúarhefð er líka lögð áhersla á að okkur sem byggjum jörðina sé falið að annast hana. Það er ljóst að við höfum ekki staðið okkur sem skyldi. Þessvegna er brýnt að guðfræðingar fjalli um afleiðingar af vanrækslu og misnotkun á umönnunarhlutverkinu. Af því að sköpunin hefur verið svívirt með illri umgengni og ofnýtingu stöndum við frammi fyrir þeim mikla vanda sem raun ber vitni. Ábyrgð okkar allra er mikil, ekki aðeins gagnvart skapara okkar og sköpunarverkinu, heldur einnig kynslóðum framtíðarinnar og möguleikum þeirra til þess að byggja þessa jörð.

Sú guðfræðistefna sem kom fram á 16. öld og varð síðar að kirkjulegri hreyfingu kallast á erlendum tungumálum re-formation, sem merkir endur-mótun, endur-skoðun, eða endur-uppbygging, en hefur á íslensku ýmist verið þýtt sem sið-breyting, siða-skipti, eða sið-bót. Í þessum fyrirlestri verður spurt hvort að umhverfisvandinn sé það sem helst kallar á siðbót nú í upphafi 21. aldar, í merkingunni enduskoðun á ríkjandi gildum og viðhorfum og breytingu á afstöðu og hegðun gagnvart umhverfinu.

Á síðasta ári var þess minnst að 500 ár voru liðin frá því að Marteinn Lúther negldi mótmæli gegn spillingu innan Rómarkirkjunnar, í 95 liðum, upp á kirkjuhurðina í Wittenberg. Þar með fór af stað bylgja gagnrýni, umræðu og uppreisna sem leiddu til þess sem kallað hefur verið siðbreyting eða siðbót í norður hluta Evrópu. Undanfarna mánuði hafa þúsundir kvenna um allan heim neglt mótmæli sín gegn kynferðisofbeldi á samfélagsveggina og krafist breytinga. Það er kallað eftir nýrri siðbót sem felur í sér breytta afstöðu gagnvart konum á vinnustöðum, í opinberu rými, sem innan veggja heimilanna. Þess er krafist að kynbundið ofbeldi og áreitni heyri brátt sögunni til. Hvar liggja ræturnar, hvernig hefur ofbeldið þróast og hvað er til ráða? Hvernig á að knýja fram siðbót á tímum netheima þar sem nafnlaust ofbeldið þrífst í orðum, myndum og gerðum? Hvernig fylgjum við #metoo vakingunni eftir og hvaða áhrif á hún eftir að hafa á samfélag okkar?

Deila færslunni