Skjöl í þágu þjóðar: Nýjungar á Þjóðskjalasafni Íslands

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Í málstofunni verður fjallað um aðgengi að skjalasöfnum nútímans. Áhersla verður lögð á þau verkefni á safninu sem varpa ljósi á framtíðar notkunarmöguleika þeirra.

Gunnar Örn Hannesson kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 069 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Kristjana Kristinsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 13.00-14.30

Hlutverk Þjóðskjalasafns Íslands er lögum samkvæmt að annast framkvæmd opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar og gegna hlutverki opinbers skjalasafns. Í því felst m.a. að safnið setur reglur, gefur út leiðbeiningar, hefur eftirlit og tekur við skjölum til varðveislu og gerir þau aðgengileg til notkunar fyrir almenning og fræðimenn. Í erindinu verður farið yfir hvernig Þjóðskjalasafn ræki þessi hlutverk m.a. til að tryggja myndun, vörslu og örugga meðferð skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og varðveislu sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.
Í erindinu verður fjallað um þá breytingu sem orðið hefur við tilkomu rafrænnar skjalavörslu á kostnað pappírsskjalavörslu. Fjallað verður um svokallaða skjalavistunaráætlun sem inniheldur yfirlit yfir og lýsingu á rafrænu jafnt sem pappírsskjalasafni hverrar stofnunar. Einnig veður drepið á hvernig aðgengi notenda til rannsókna í rafrænum skjalasöfnum með hjálp skjalavistunaráætlunar verður er fram líða stundir.

Í þessum fyrirlestri verður gefin smá innsýn inn í innra starf á Þjóðskjalasafni er snertir safnkost safnsins og miðlun upplýsinga um hann. Fjallað verður um stöðuna á safnkostinum og hvernig frágangur og skráning skjalasafna hefur þróast með aukinni tækni og þekkingu. Sýnd verður uppbygging skjalaskráa og kynntir verða staðlar sem notaðir eru við skráningu skjala.  Kynnt verður nýopnuð leitarsíða Þjóðskjalasafns í skjalaskrám safnsins og virkni hennar. Þá verður fjallað um hvernig Þjóðskjalasafns Íslands heldur utan um upplýsingar um skjalasöfn í sinni vörslu og hvernig það utanumhald hefur þróast með tímanum.

Segja má að eitt af megin hlutverkum nútíma skjalasafna sé að birta heimildir á netinu. Þjóðskjalasafn Íslands reynir að standa undir nafni sem skjalasafn íslensku þjóðarinnar með því að birta eftirsóttar heimildir á netinu. Auk þess að þjóna áhugasömum með því að gera tilteknar heimildir þannig aðgengilegar, er um leið hægt að hlífa hinum sömu heimildum við handfjötlun. Þannig hefur heimildabirting á netinu visst forvarnargildi. Í erindi mínu mun ég fara yfir þær heimildir sem þegar eru tiltækar á netinu og jafnframt gera grein fyrir þeim verkefnum sem unnið er að á þessu sviði í Þjóðskjalasafni Íslands.

Deila færslunni