Sögur af Guðmundi góða

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Guðmundur góði Arason var Hólabyskup á fyrstu áratugum 13. aldar. Hann var mikill trúmaður en umdeildur biskup og gekk á ýmsu í embættistíð hans, eins og frægt er. Fljótlega eftir að hann lést, 16. mars 1237, virðast stuðningsmenn hans hafa tekið að draga saman efni til helgisögu, sem geymt var í kirkjunni í Laufási, en hún brann árið 1258 með því efni um Guðmund sem þar var. Engu að síður varðveittust í sagnasafninu Sturlungu og víðar fjölmargar ritaðar frásagnir í lausu máli og bundnu af Guðmundi og biskupstíð hans. Snemma á 14. öld hófust aftur tilraunir til þess að gera helgi Guðmundar skil í rituðu máli og frá þeim tíma hefur saga Guðmundar varðveist í fjórum gerðum á íslensku og hefur væntanlega jafnframt verið til lífssaga hans á latínu þótt nú sé hún glötuð. Í málstofunni fjalla fræðimenn um sögur af Guðmundi góða út frá fjölbreyttum sjónarhornum svo sem nánar má lesa um í lýsingum á efni einstakra erinda.

Ásdís Egilsdóttir kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 052 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 10.00-12.00

Málstofustjóri:
Gottskálk Jensson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 10.00-12.00

Á fyrri hluta 14. aldar voru ritaðar fjórar mismunandi gerðir af sögu Guðmundar Arasonar Hólabiskups (d. 1237) sem auðkenndar hafa verið með bókstöfunum A, B, C og D eftir skyldleika þeirra við texta sem varðveittur er í Sturlungu. Texti A- og B-gerðar víkur ýmist lítt eða ekki frá heimildum en C- og D-gerð eru aftur á móti frumritaðar frá upphafi til enda og hafa hvor um sig sinn sérstaka stíl. Tengsl þessara tveggja síðastnefndu gerða eru ekki ljós en þó er talið að C-gerð sé heimild D-gerðar. Hinn fyrrnefnda er talin vera verk Bergs Sokkasonar ábóta á Munkaþverá en hin síðarnefnda er eftir Arngrím Brandsson ábóta á Þingeyrum. Hún er jafnframt eina gerð sögunnar sem varðveist hefur heil og hefur verið gefin út í tvígang. Lítið hefur farið fyrir C-gerð fram að þessu þar sem sagan hefur enn ekki verið gefin út. Í fyrirlestrinum verður fjallað nánar um skyldleika C-gerðar við aðrar gerðir Guðmundar sögu, bókmenntategund sögunnar, stíl, höfundareinkenni og sérefni. Ennfremur verður stuttlega vikið að hugsanlegum ástæðum þess að svo margar sögur voru ritaðar á hálfrar aldar tímabili af einum og sama biskupinum.

Aðdáendur Guðmundar Arasonar reyndu á fjórtándu öld að fá hann viðurkenndan í Páfagarði sem dýrling og til þess þurfti texta á latínu. Slíkur texti hefur ekki varðveist en í byrjun tuttugustu aldar benti Björn M. Ólsen á að D-gerð Guðmundar sögu eftir Arngrím Brandsson ábóta á Þingeyrum (d. 1361) væri „auðsjáanlega skrifuð upphaflega á latínu og hvorki ætluð Íslendingum nje Norðmönnum“. Hann benti meðal annars á lýsingu Íslands, fræðslu höfundar um stað- og atvinnuhætti á landinu og það einkenni D-gerðar að nefna aðeins nöfn biskupa og meiriháttar manna og staða á Íslandi en sleppa öðrum nöfnum úr íslenskum heimildum ritsins (C-gerð Guðmundar sögu), sem aðeins gæti þótt eðlilegt ef sagan var skrifuð fyrir erlenda lesendur. Margir helstu norrænufræðingar tuttugustu aldar, s.s. Finnur Jónsson, Jón Helgason, Peter Hallberg og Stefán Karlsson, hafa fallist á kenningu Björns um D-söguna, að hún sé samin fyrir erlenda lesendur, og raunar hafa engin góð rök komið fram sem dregið gætu sannleiksgildi kenningarinnar í efa. Í erindinu verða rifjuð upp helstu einkenni D-gerðar Guðmundar sögu, sem tengjast latneskum uppruna hennar, og þess freistað að sýna enn og aftur að D-gerð Guðmundar sögu geti ekki verið frumsamin á íslensku.
Í B-gerð Guðmundar sögu, fyrstu gerðinni sem skrifuð er sem helgisaga, er lögð ræða í munn Guðmundi góða þar sem hann réttlætir brunnvígslur sínar með guðfræðilegum rökum og jarðfræðihugmyndum þess tíma. Ég mun ræða um brunnvígslur Guðmundar, hvernig Gvendarbrunnar nútímans líkjast og eru frábrugðnir heilögum lindum í öðrum löndum, og um heimildir ræðunnar, sem eru margar til í norræni þýðingu, svo sem saga heilags Ambrósíusar, Duggals leiðsla og Hómilíur Gregoríusar mikla. The B-version of Guðmundar saga, the first to present him as a saint, attributes to him a speech in which he defends his practice of blessing springs with reasoning based both on theology and geology as it was understood in his time. I will briefly outline how today’s Gvendarbrunnar resemble and differ from holy wells in other countries, and discuss the sources of the speech, many of which were available in the vernacular.

Sem prestur hagaði Guðmundur Arason sér líkt og væri hann ágústíni þótt ekki væri hann reglubróðir eða kanúki í Ágústínusarklaustri, svo að vitað sé. Sem ágústíni í hugsun hefur hann sjálfsagt verið hlynntur kirkjuvaldstefnunni en óvíst er að hann hafi flíkað því enda sagður „hógvær og vinsæll“. Páfi skrifaði Íslendingum árið 1198 og ávítaði fyrir óhlýðni og agaleysi, sinnuleysi um hórdóm og enn fremur fyrir að brenna fólk inni og áminnti þá um hlýðni við kirkjuna og að stunda guðsþakkaverk og ölmusur. Guðmundur var guðrækilegur í öllum háttum, ókvæntur , hreinlífur og siðavandur og góður fátækum og gjöfull við þá. Hefur þetta þótt mæla með honum þegar hann var valinn biskupsefni 1201. Þá var konungur í Noregi Sverrir sem var andstæðingur kirkjuvaldsstefnunnar og erkibiskup hafði hrakist úr landi fyrir valdi hans. En Sverrir féll frá 1202, og sonur hans og arftaki samdi við kirkjuna. Erkibiskup sneri heim, beitti sér fyrir kirkjuvaldstefnunni og brýndi Guðmund. Hann kom út vígður biskup 1203 og krafðist brátt dómsvalds í málefnum klerka. Klaustur af ágústínusarreglu var í Saurbæ í Eyjafirði, stofnað vart síðar en 1198. Guðmundur hafði átt heima í Saubæ 1178-80, 17-19 ára, og hann dvaldist þar vorið 1200. Eyjólfur ábóti í Saurbæ og Einar sem bjó á staðnum munu hafa verið bandamenn hans í átökum við harðskeytta goða. En hann átti fleiri bandamenn og gekk allvel í baráttu við andstæðinga sína til 1209. Andstæðingar hans munu hafa beint spjótum sínum að klaustrinu í svipuðum tilgangi og þegar þeir upprættu skóla hans á Hólum 1218. Þeim var líklega ekkert um það gefið að hann menntaði skoðanabræður og fjölgaði bandamönnum.

Deila færslunni