Stafrænt málsambýli íslensku og ensku

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Í málstofunni verður fjallað um stöðu íslenskunnar á tímum mikilla enskra áhrifa á íslensku í gegnum stafræna miðla og snjalltæki. Gerð verður grein fyrir fyrstu niðurstöðum öndvegisverkefnisins: Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, sem stýrt er af Sigríði Sigurjónsdóttir og Eiríki Rögnvaldssyni. Meðal annars verður rætt um stöðu verkefnisins, viðhorf til íslensku og ensku og áhrif minnkandi íslensks ílags á mál fullorðinna og máltöku barna.

Einar Freyr Sigurðsson, Eiríkur Rögnvaldsson og Sigríður Sigurjónsdóttir kynna fyrirlesara og stýra umræðum.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 102 í Lögbergi
Hvenær
Kl. 10.30-16.30

Málstofustjóri:
Einar Freyr Sigurðsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 10.30-12.00

Rannsóknasjóður veitti á vormánuðum árið 2016 þriggja ára öndvegisstyrk til verkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis. Í þessu erindi munu verkefnisstjórar þess kynna helstu markmið verkefnisins, stöðu þess í dag og gefa yfirlit yfir þær niðurstöður sem nú þegar liggja fyrir.   

Meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka áhrif stafrænna miðla og snjalltækja, sem gjarnan bjóða upp á gagnvirk samskipti við notendur á ensku, á orðaforða, málkunnáttu og málnotkun Íslendinga og á stöðu og framtíð íslenskunnar. Snjalltækjabylting síðustu ára hefur haft í för með sér aukna enskunotkun víða um heim en í verkefninu verður íslenska notuð sem dæmi um tungumál sem er undir auknu álagi vegna aukinnar notkunar ensku í kjölfar samfélagsbreytinga undanfarinna ára.

Viðamikil netkönnun, sem ætlað er að veita yfirlit yfir notkun íslensku og ensku í íslensku málsamfélagi, málkunnáttu í íslensku og ensku, viðhorf til málanna tveggja o.fl., hefur nú þegar verið send til lagskipts handahófsúrtaks 5.000 Íslendinga á aldrinum 3–98 ára (svarhlutfall: um 45%). Gefið verður yfirlit yfir helstu niðurstöður sem nú þegar liggja fyrir úr netkönnuninni frá þátttakendum á aldrinum 13–98 ára og rætt hvort niðurstöðurnar bendi til að nú þegar séu komin fram máltilbrigði sem tengjast nánu sambýli íslensku og ensku.

Á síðustu árum og áratugum hafa orðið talsverðar samfélagsbreytingar, a.m.k. í hinum vestræna heimi. Framfarir á sviði upplýsinga og tækni ásamt aukinni alþjóðavæðingu hafa að vissu leyti gjörbreytt heimsýn fólks og gert það að verkum að mörgum þykir heimurinn sífellt fara minnkandi. Samhliða þessum breytingum fer mikilvægi sameiginlegs tungumáls, þ.e. tungumáls sem flestir geta notað og skilið, sífellt vaxandi og má því ætla að áðurnefndar breytingar hafi bæði áhrif á stöðu tungumála sem og viðhorf einstaklinga til mismunandi tungumála.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um viðhorf málhafa til íslensku annars vegar og ensku hins vegar og tengsl mismunandi hvata við vilja málhafa til að tileinka sér málstaðal móðurmáls síns og/eða annars máls. Fyrirlesturinn er byggður á niðurstöðum viðhorfsspurninga sem eru hluti af verkefninu Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis. Leitast verður við að varpa ljósi á hvernig ólíkur menningarhvati, þ.e. hvernig einstaklingar skilgreina sjálfsmynd sína í menningarlegu samhengi, kunni að hafa áhrif á viðhorf þátttakenda til íslensku og ensku. Bornar verða saman niðurstöður tveggja hópa, sem hér verða nefndir heimdragar og heimsborgarar, og rök verða færð fyrir því að ólík svör hópanna megi að einhverju leyti rekja til mismunandi menningarhvata.

Síaukin umræða um stöðu og framtíð íslenskunnar hefur eflaust ekki farið framhjá mörgum. Yfirleitt er hún, a.m.k. að einhverju marki, óttablandin vegna yfirvofandi hættu á því að tungumálið okkar deyi út í einhverjum skilningi og enskan taki yfir ef ekki verði brugðist við.
Í umræðu um lífvænleika íslensku er því yfirleitt haldið fram, íslenskunni til hagsbóta, að þrátt fyrir geigvænleik áhrif frá ensku sé íslenskan enn með yfirhöndina á flestum, ef ekki öllum, sviðum samfélagsins. Við nánari athugun virðist þó glitta í hættumerki víða og þá kannski ekki síst á sviði daglegra samskipta.
Undanfarin ár hafa svokallaðir stafrænir aðstoðarmenn (e. virtual assistants) á borð við Google Assistant, Alexu og Siri þróast afar hratt. Þá má nálgast í sífellt fleiri tækjum og nýta sér til aðstoðar við sífellt fleiri verkefni og í sumum tilvikum má jafnvel finna þar félagsskap. Því má leiða líkur að því að dagleg samskipti fólks muni í auknum mæli felast í samræðum við slíka aðstoðarmenn – og eins og staðan er í dag skilur enginn þeirra íslensku.
Í þessum fyrirlestri verður reynt að varpa ljósi á möguleg áhrif stafrænna aðstoðarmanna á lífvænleika íslensku auk þess sem rök verða færð fyrir því að nú sem aldrei fyrr þarf að bregðast hratt við.

10. mars kl. 13.00-16.30

Ýmsir fræðimenn telja að orsök málbreytinga megi rekja til mismunandi túlkunar á ílagi (e. input) barna á máltökuskeiði, þ.e. þeirra upplýsinga sem börn fá í málumhverfi sínu. Vegna mikilla samfélagsbreytinga síðustu ára hefur enskt ílag íslenskra barna aukist gríðarlega en þar er um að ræða bæði gagnvirkt ílag og stafrænt ílag (e. electronic media exposure/digital input). Stafrænt ílag felst m.a. í mállegu áreiti frá ýmsum tækjum eins og sjónvörpum, tölvum og snjalltækjum en rannsóknir hafa sýnt að bæði magn og gæði ílags skipta máli fyrir máltökuna og er þetta stafræna ílag ekki talið skila jafn miklum árangri og ílag sem felst í gagnvirkum mállegum samskiptum. Gögn úr rannsóknarverkefninu Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis verða notuð til þess að reyna að kortleggja stafrænt ílag Íslendinga, bæði enskt og íslenskt, og til að athuga hvort og hvernig það hefur áhrif á íslensku.

Í þessu erindi verður fjallað um háttanotkun þátttakenda í rannsóknarverkefninu Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis (Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson, 2015). Háttanotkun, þ.e. val á viðtengingarhætti og framsöguhætti, 16-25 ára og 46-55 ára Íslendinga var rannsökuð í viðamikilli netkönnun á vegum verkefnisins. Í ljós kom að yngra fólk er líklegra til að samþykkja tilbrigði eða nýjungar í háttanotkun en það eldra.

Ein möguleg ástæða málbreytinga af þessu tagi er breyting á ílagi (e. input). Breytt samfélagsgerð á Íslandi og aukin áhrif ensku gætu valdið breyttu ílagi þar sem ílag á ensku hefur e.t.v. aukist á kostnað íslensku. Markmið þeirrar rannsóknar sem hér er fjallað um er að kanna hvort breyttar aðstæður og breytt ílag geti orðið til þess að hraða málbreytingum sem þegar eru hafnar í íslensku. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að svo sé þar sem fylgni er á milli enskuílags og óhefðbundinnar háttanotkunar þátttakenda.

Fallmörkun í íslensku er að sumu leyti bundin við einstakar sagnir og því er sagnorðaforði ein forsenda þess að börn á máltökuskeiði tileinki sér fallmörkunarreglur. Tileinkun orðaforða veltur sjálf á ýmsum þáttum, til að mynda á því að orðin séu á meðal þess sem fyrir börnunum er haft – að þau birtist í ílaginu sem drífur áfram máltökuna, og að þau birtist nægilega oft. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að því hvaða sagnir birtast í barnamáli og hvernig þær styðja við ólíkar fallmörkunarreglur, en nýlegar rannsóknir í máltökufræðum benda til þess að virkni reglu sé hægt að skýra með fjölda ólíkra orða sem falla undir regluna miðað við fjölda undantekninga. Út frá slíkum viðmiðum verður athugað hvaða möguleg áhrif minnkað ílag, til að mynda í kjölfar aukins stafræns málsambýlis, gæti haft á sagnorðaforðann og þar af leiðandi reglurnar sem byggja á honum

Mikil notkun og aðgengi að efni á ensku í umhverfi ungra Íslendinga verður rætt í þessum fyrirlestri. Rannsóknir sýna að börn á Íslandi eru farin að nota ensku og hafa meiri orðaforðaþekkingu en gert er ráð fyrir þegar þau hefja nám í ensku í skóla. Einnig er mikið rætt í Evrópu um hvaðan þekkingin kemur og verið er að skoða tegund orðaforða í umhverfi ungs fólks sem ekki er alltaf sá sami og kenndur er í skólastofunum. Gerð var rannsókn þar sem textar, mynd- og netefni var skoðað út frá tíðni ensks orðaforða og það borið saman við niðurstöður úr rannsókn á málsambýli ensku og íslensku. Greindur er orðaforði í bókum, myndböndum og netefni sem ungt fólk hefur aðgang að og notar mikið og orðaforðinn skoðaður út frá tíðni algengustu orða í ensku máli. Í þessum fyrirlestri verða kynntar fyrstu niðurstöður á þekkingu orðaforða í ensku og stig orðaforða í efni sem ungt fólk á Íslandi les, hlustar og horfir á á ensku. Í fyrirlestrinum verður tegund orðaforða og samband þekkingar og notkunar skoðað og rætt hvaða áhrif efnið getur haft á þekkingu ungs fólks á ensku.

Þekkt er að hvorugkyn fleirtölu er oft notað í íslensku samræmi þegar talað er um kynjablandaða hópa fólks, jafnvel þegar nafnorðið sem stýrir samræminu er af öðru málfræðilegu kyni. Í slíkum tilvikum er merking látin ráða samræmi – til dæmis má ráða af setningunni Krakkarnir (kk.ft.) voru glöð (hk.ft.) að talað er um kynjablandaðan hóp barna. Margir málhafar hafa þó tilhneigingu til þess að nota hvorugkyn fleirtölu enn víðar en búist væri við, t.d. til samræmis samtengdum nafnliðum þar sem venjan er að hafa karlkyns- eða kvenkynssamræmi. Dæmi um slíkt samræmi er t.d. Bollinn (kk.et.) og diskurinn (kk.et.) eru blá (hk.ft.), Hundurinn (kk.et.) og fuglinn (kk.et.) eru svöng (hk. ft.) og jafnvel Amman (kvk.et.) og frænkan (kvk.et.) eru alltaf full (hk.ft.). Þetta er hvorugkynssamræmi sem kemur fram í málnotkun þrátt fyrir að engar merkingarlegar skýringar virðist liggja að baki. Í þessum fyrirlestri verður rýnt í ýmis sambærileg máldæmi og fyrstu niðurstöður úr nýrri könnun á kynjasamræmi í máli barna á aldrinum 3–12 ára kynntar, en gögnum var safnað innan verkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis. Þá verður farið yfir mögulegar skýringar á þessu óvænta hvorugkynssamræmi

Setningin í (1) er tæk í íslensku en setningin í (2) er ótæk í máli margra.

(1) Samþykktar kröfur eru nú 20 talsins.
(2) *Hafnaðar kröfur eru nú 20 talsins.

Þó ganga báðir lýsingarhættir í hefðbundinni þolmynd, sjá (3)–(4).

(3) Kröfurnar voru samþykktar.
(4) Kröfunum var hafnað.

Ástæðuna fyrir því að (2) er ótæk setning í máli margra virðist mega rekja til þess að sögnin hafna stýrir orðasafnsfalli, nánar tiltekið þágufalli, en sögnin samþykkja tekur með sér formgerðarfall (þolfall í germynd, nefnifall í þolmynd). Hins vegar verða einkunnir eins og í (2) mun betri, e.t.v. fullkomlega tækar, þegar nafnliðurinn í heild stendur í þágufalli, sjá (5).

(5) Höfnuðum kröfum var áfrýjað til Hæstaréttar.

Þetta er nokkuð óvænt enda er það ekki sögnin hafna sem stýrir þágufalli á nafnliðnum höfnuðum kröfum í (5) heldur sögnin áfrýja. Þess vegna ættum við fyrirfram ekki vona á því að (5) væri neitt skárri en (2). Sams konar munur kemur hins vegar fram með fleiri lýsingarháttum og einnig með lýsingarorðseinkunnum sem taka alla jafna með sér þágufall, sjá (6)–(7), og einkunnum með viðskeytinu -andi sem myndaðar eru með sögnum sem stýra venjulega þágufallsandlagi, sjá (8)–(9). Í (6)–(7) ber að athuga að miðað er við að manneskjunum (þgf.) sé kalt en ekki að manneskjurnar (nf.) séu kaldar.

(6) *Kaldar manneskjur skjálfa gjarnan.
(7) ?Köldum manneskjum líður oft illa.
(8) ??Ég vil ekki fá neina óbjóðandi menn í veisluna.
(9) (?)Ég vil ekki bjóða neinum óbjóðandi mönnum í veisluna.

Í fyrirlestrinum verður leitað útskýringa á muninum milli (2), (6) og (8) annars vegar og (5), (7) og (9) hins vegar. Þá verður einnig rætt um aðferðir sem notaðar verða í öndvegisverkefninu Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis við rannsóknir á þessari setningagerð.

Deila færslunni