Syndin og aðrar skuggahliðar tilverunnar í evrópskum bókmenntum

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Synd er vel þekkt stef í kristinni hugsun og vestrænum bókmenntum og um hana hefur verið fjallað á ólíkum tímabilum og frá ólíkum sjónarhornum, s.s. trú, heimspeki, sálarlífi og sektarvitund, lögum, ást, iðrun og ótta, í bókmenntum, listum og á fræðilegum vettvangi. Þótt syndin vilji loða við manninn í einni eða annarri mynd í kristinni heimssýn er hún þó ekki ófrávíkjanlegur fylgifiskur hans. Í þessari málstofu verður fjallað um ólíkar birtingarmyndir syndarinnar – eða fjarveru hennar – í verkum nokkurra höfunda.

Laugardagur 10. mars

Hvar
Stofu 204 í Lögbergi
Hvenær
Kl. 13.00-16.30

Málstofustjóri:
Ásdís R. Magnúsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 13.00-14.30

Frumheimildir Dantes fyrir Gleðileikinn guðdómlega eru enn óskýrar. Auk Biblíunnar og mikilvægra verka á sviði heimspeki og guðfræði, þekkti Dante vel til hinnar fátæklegu og einföldu bókmenntahefðar miðalda sem byggir á þjóðsögnum (svokölluðum „miðaldasýnum“), þar sem söguhetjurnar ferðast í draumi og heimsækja handanheiminn, líða vítiskvalir og gleðjast í himnaríki. Með fjörugum lýsingum, líflegri frásögn og endurskoðun gamalla goðsagna kemst Dante í Gleðileiknum guðdómlega í tengsl við „sýnirnar“. En frá guðfræðilegu sjónarhorni, sér í lagi í hinni vandvirku skiptingu þriggja heima og niðurskipan syndanna, er hann nær Siðfræði Níkomakkosar eftir Aristóteles og Summa Theologiae eftir Tómas frá Aqvínó, eins og margir vita. Í lýsingum sínum tekur Gleðileikurinn guðdómlegi „sýnunum“ fram í mögnuðum og margbreytilegum frásögnum, aðstæðum, persónum og þemum. Í fyrirlestrinum verður skoðað hvernig hugvitssemi Dantes, einnig í guðfræðilega hlutanum – þar sem hann fjallar um syndaskiptingu – skapar nýjar aðstæður, sem samræmast ekki alltaf kenningum ofangreindra fræðimanna.

Í smásagnasafninu Riddaraliðinu, eftir rússnesk-sovéska rithöfundinn Ísaak Babel, eru dregnar upp ágengar myndir af misheppnaðri herför inn í Pólland árið 1920. Herförin var farin á tímum borgarastríðsins í Rússlandi og átti að vera liður í útbreiðslu heimskommúnismans. Uppistaðan í þessu riddaraliði voru Kósakkar, sem í meðförum Babels verða óttalausir stríðsmenn, sem hvorki bregður við eyðileggingu, limlestingar, föðurmorð eða dráp á almennum borgurum. Atburðirnir sem lýst er minna á heimsendi, eða ragnarök. Grimmdin, miskunnarleysið og þjáningarnar einar og sér virðast þó ekki nægja til að ná fram slíkum áhrifum. Það er einkum á grunni sviðsmyndarinnar og lýsingarinnar, táknum himins og jarðar, sem hugmyndin um fall mannsins og allsherjar uppgjör verður áþreifanleg. Í erindinu skoðum við þessa sviðsmynd Babels og hlutverk hennar í að gefa atburðunum merkingu og siðferðilegt inntak, þar sem „sólin veltist appelsínugul um himininn eins og afskorið höfuð“, „Himinninn skiptir litum. Milt blóð flæðir úr flöskunni sem oltið hefur um koll þarna uppi, og léttur rotnunarilmur umvefur [mann]“ og „nakið skin mánans [hellist] yfir bæinn af óþrjótandi afli. Þvöl mygla rústanna [blómstrar] eins og marmarabekkur á óperusviði.“

Um miðbik 17. aldar braust út í Frakklandi á nýjan leik aldagömul deila um dyggðir heiðinna manna og möguleika þeirra á náð og eilífri himnavist. Þessi spurning var þýðingarmikið atriði fyrir ritun og túlkun leikverka sem byggðu á fornum sagnaheimi Grikkja og Rómverja. Leikskáld litu m.a. til Ágústínusar kirkjuföður sem í riti sínu Borgríkið færir rök fyrir því að kristni hafi ekki orðið Rómaveldi að falli heldur hafi heimsveldið frá upphafi falið í sér spillingaröfl þar sem það hafi verið byggt á ofbeldisverkum. Ágústínus tekur sem dæmi sögurnar um Lúkresíu og Hóras sem greint er frá í ritum Titusar Liviusar og Denys frá Halicarnasse. Fyrir honum eru sjálfsmorð Lúkresíu og systurmorð Hórasar syndir en fyrir gerendurna voru verknaðirnir framdir til að viðhalda heiðri fjölskyldunnar annars vegar eftir svívirðilega nauðgun og föðurlandsins hins vegar eftir að systir Hórasar hafði lítilsvirt Róm með því að láta ekki í ljós fögnuð yfir sigri bróður síns yfir unnusta hennar. Fjallað verður um tvo harmleiki frá 17. öld, Lucrèce eftir Pierre du Ryer og Horace eftir Pierre Corneille, út frá hugmyndum samtímamanna um heiður, syndir og föðurmorð á tímum þegar eftirmálar trúarbragðastríðsins í Frakklandi voru enn óuppgerðir.

10. mars kl. 15.00-16.30

Síðsymbólísk og módernísk ljóð Rainers Maria Rilke hafa enn breiðan lesendahóp. Ein af ástæðunum fyrir þessum langvinnu vinsældum er án efa hæfileiki hans til að tjá tilvistarlega reynslu með háleitu (súblímu) myndmáli. Hinn uppbyggilegi tónn sem einkennir mörg ljóð hans hefur einnig sett mark sitt á ímynd hans sem andlegs ljóðskálds og Bréf til ungs skálds eru enn í uppáhaldi hjá mörgum sem „sjálfshjálparbók“. En verk Rilkes eru ekki aðeins uppbyggileg. Þau teygja sig á milli tveggja póla: Annars vegar er tilvist mannsins sýnd sem samofin „æðra skipulagi“ og hins vegar hefur hann næmt auga fyrir skuggahliðum tilvistarinnar. Þær skuggahliðar birtast á ólíkan hátt á mismunandi skeiðum í höfundarverki hans. Með því að beina sjónum að þremur höfuðverkum frá þremur mismunandi tímabilum í höfundarverki hans verður hér rakinn þráður í verkum Rilkes frá upphafi til enda, þar sem Stundabókin er dæmigerð fyrir fyrstu verkin, Minnisbækur Malte Laurids Brigge fyrir miðbik höfundarverksins og Dúínó tregaljóðin fyrir síðustu verk hans.

Áhrif heilags Ágústínusar leynast víða í vestrænum bókmenntum og hugsun. Í nýlegri bók um Útlendinginn eftir Albert Camus bendir bandaríski bókmenntafræðingurinn og þýðandinn Alice Kaplan á hugsanleg – ómeðvituð?– áhrif frá Játningum Ágústínusar í skáldsögu Camus og rifjar upp að Camus fjallaði einmitt um verk kirkjuföðurins frá Hippó í sínu háskólanámi. Hér verður kafað dýpra í þennan samanburð en einnig litið til annarra verka sem sækja enn frekar innblástur til Játninga Ágústínusar og þeirrar trúarlegu þroskasögu sem þar er að finna. Eitt þeirra er Sagan um gralinn, fyrsta riddarasagan sem snýst um trúarlega leit, iðrun og synd. Hún var samin í lok 12. aldar og átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á umfjöllunarefni frönsku miðaldaskáldsögunnar og skáldsagnaritun.

Deila færslunni