Undir áhrifum

In Málstofur by Margrét Guðmundsdóttir

Áhrifsbreytingar eða analógía er alþekkt hugtak innan málvísinda en menn hefur þó greint nokkuð á hvernig beri að skilgreina það og hvort það eigi yfirleitt rétt á sér. Fyrirlestrar málstofunnar snúast allir um þetta umdeilda hugtak en hver með sínum hætti. Sá fyrsti fjallar um áhrifsbreytingar í beygingu nokkurra íslenskra nafnorða. Í öðrum fyrirlestrinum verður sýnt fram á að analógía liggur að baki útvíkkun bæði minniháttar beygingarmynsturs og annars sem talið er til reglulegra beygingarmynstra færeysku (og íslensku) en þessi staðreynd stangast á við kennisetningar tvíúrvinnslulíkansins (e. dual-processing model) sem gerir ráð fyrir eðlislægum mun á virkni reglulegrar beygingar annars vegar og óreglulegrar beygingar hins vegar. Í þeim þriðja verður fjallað um skilning Hermanns Paul á analógíu og hvernig hann rímar við skilning ýmissa sporgöngumanna hans.

Aðalsteinn Hákonarson doktorsnemi kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 103 í Lögbergi
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Katrín Axelsdóttir


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 13.00-14.30

Beyging þessara orða hefur breyst frá fornmáli til nútímamáls. Orðið él hafði í þágufalli og eignarfalli fleirtölu myndirnar élum og éla; seinna urðu til myndirnar éljum og élja. Eignarfall fleirtölu orðsins kjör hefur breyst úr kjöra í kjara. Loks hefur fleirtöluorðið læti tekið upp blandaða beygingu. Upphaflega hafði það myndirnar lætum og læta í þágufalli og eignarfalli fleirtölu. Seinna fékk það myndirnar látum og láta. Þær eru þó ekki orðnar til við analógíska nýmyndun heldur hafa þær verið fengnar að láni úr öðru beygingardæmi, þ.e. frá fleirtöluorðinu lát sem hafði svipaða merkingu. Í fyrirlestrinum verður ýtarlegri grein gerð fyrir áðurnefndum breytingum og orsakarvöldum þeirra.

Samkvæmt málnotkunarlíkaninu (e. usage-based model) stuðlar aukin breidd (e. type frequency) að aukinni virkni beygingarmynstra. Vitneskja um breidd byggist á fyrri reynslu af beitingu mynstra við málnotkun og geymist þ.a.l. í minni. Aukin breidd hins sjálfkrafa (e. default) a-stofnamynsturs hjá karlkynsnafnorðum í færeysku, sem lýsa má með vísun í skemavenslamynstrið fær. nf.et. Xur ~ nf./þf.ft. Xar ~ nf.ft.mgr. Xarnir, sbr. nf.et. hestur ~ nf./þf.ft. hestar ~ nf.ft.mgr. hestarnir, rótfestir (e. entrenches) mynstrið umfram önnur karlkynsmynstur og gerir það tiltækara úr minni fyrir vikið. Mynstrið er ekki aðeins breitt heldur einnig vítt (e. minimally schematic). Þetta tvennt stuðlar að umtúlkun upprunalegra kvenkynsmynda með fær. nf./þf.ft. -ar, t.d. nf./þf.ft. akslar, varrar, sem karlkyns, sbr. nf./þf.ft. akslar ~ nf.ft.mgr. akslarnir (eldra akslarnar). Að akslar og varrar víxlast á við eintölumyndir sem eru greinilega merktar sem kvenkyns, sbr. et. øksl, vørr, staðfestir að skemavenslamynstrinu nf./þf.ft. Xar ~ nf.ft.mgr. Xarnir verður beitt vegna semdarsamræmingar (e. analogy) við sömu vensl hjá þekktum karlkyns a- og an-stofnum. Þar sem allt bendir til þess að málnotendur geymi fleirtölumyndir orða sem beygjast eftir sjálfkrafa mynstri í minni má draga í efa að þær séu ávallt leiddar af orðasafnsmynd, þ.e. mynd nefnifalls eintölu, við beitingu táknrænna reglna (e. symbolic rules).

Þýski mál- og textafræðingurinn Hermann Paul (1846–1921) var einn ungmálfræðinganna svokölluðu. Helsta verk hans, Principien der Sprachgeschichte, var margsinnis gefið út og taldist grundvallarrit í málvísindum um áratugaskeið. Þeim hugmyndum sem Paul setur fram um áhrifsbreytingar (analógíu) í verki sínu hafa nýlega verið gerð nokkur skil í ýmsum skrifum Bandaríkjamannsins Davids Fertig (2013, 2015, 2016). Fertig gagnrýnir meðal annars hvernig Paul jaðarsetur ýmsar tegundir ódæmigerðra áhrifsbreytinga og kýs að telja þær vera eitthvað annað. Í fyrirlestrinum verður sagt frá ólíkum hugmyndum þessara tveggja málfræðinga og hvernig þær ríma við nálgun eða skoðanir nokkurra íslenskra málfræðinga á áhrifsbreytingum.

Deila færslunni