Vitringar og andvitringar fornaldar

In Málstofur by Elín Björk Jóhannsdóttir

Málstofan er þríleikur um nokkrar fyrirmyndir heimspekinga í fornöld: Um efahyggjumanninn og um Sókrates, sem öllum var innblástur; um vitringinn í heimspeki stóumanna; og um stjórnvitringinn og löggjafann eins og þeim er lýst í samræðum Platons.

Gunnar Harðarson prófessor kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Föstudagur 9. mars

Hvar
Stofu 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Hvenær
Kl. 13.00-14.30

Málstofustjóri:
Geir Þ. Þórarinsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

9. mars kl. 13.00-14.30

Sú stjórnmálaheimspeki sem Platoni er eignuð byggir oftast nær á túlkun á Ríkinu. Í yngri samræðum hans eru áherslur stundum aðrar en þar. Í Ríkinu er lögð áhersla á að samfélagið lúti stjórn heimspekinga til þess að því farnist vel. Í Lögunum er aftur á móti lögð áhersla á góða löggjöf og að löggjafinn hafi meðal annars uppeldis- og menntunarhlutverki að gegna. Í Stjórnvitringnum, sem samin var á eftir Ríkinu en á undan Lögunum, er fyrirmyndar stjórnvitringi lýst sem vefara. Hvað er hann að vefa og handa hverjum? Og í hverju felst kunnátta hans?

Heimspekiskólar fornaldar höfðu hver og einn sína mynd af hinum „vitra manni“ (sofos, fronimos, spoudaios, sapiens). Slík mynd var einkum mótuð af Stóumönnum sem, líkt og aðrir „sókratískir skólar“, höfðu heimspekinginn Sókrates sem fyrirmynd að þessu leyti. Í fyrirliggjandi erindi mun sú mynd sem Stóumenn mótuðu og kynntu af hinum vitra manni vera rædd með dæmum úr stóískum heimildum þar sem áhersla verður lögð á þá mynd sem hinn vitri maður hafði meðal Stóumanna á fyrstu öld e.Kr., þ.e.a.s. innan rómverskrar Stóuspeki með Seneca hinn yngri í broddi fylkingar.

Ólíkt öðrum heimspekingum fornaldar þóttust efahyggjumenn ekki hafa þekkingu á heiminum. Reyndar þóttust þeir flestir ekki einu sinni hafa skoðun á honum. Þeir æstu sig ekki yfir kenningum annarra skóla eða hugmyndum þeirra um vitringinn. Þó færðu akademískir efahyggjumenn rök fyrir því að vitringur stóumanna, væri hann sjálfum sér samkvæmur, ætti alltaf að fresta dómi ella styðjast við óvissar skoðanir, sem hvorugt þótti boðlegt. Áhrifa Sókratesar gætir í þessum rökum og öðrum sem efahyggjumenn beittu gegn kennimönnum af ýmsu tagi, enda var heimspeki Sókratesar viðurkennd forsenda þeirrar efahyggju sem ástunduð var innan Akademíunnar um aldir, því að eins og kunnugt er þóttist Sókrates harla fávís. Það er nokkuð kaldhæðnislegt, því að hinn fávísi Sókrates varð einmitt fyrirmynd vitringsins hjá mörgum kennimönnunum.

Deila færslunni