Vont fólk og ljótt – jaðarinn í íslensku samfélagi fortíðarinnar

In Málstofur by Margrét Guðmundsdóttir

Hvernig er hægt að fjalla um „vont fólk og ljótt“? Hér er átt við þann hóp sem var á jaðri samfélagsins og var í einhverjum skilningi álitið óferjandi og óalandi. Er hægt að tala um hann sem fríkin í samfélaginu, fólk sem var starað á og það jafnvel útskúfað með beinum eða óbeinum hætti. Í þessari málstofu mun hópur vísindamanna ræða bæði um hugmyndafræðilega stöðu þessa hóps, rannsaka hann út frá einstökum dæmum frá hinni löngu 19. öld og um leið að velta upp siðferðilegum spurningum sem tengjast vísindamanninum sem velur sér þetta viðfangsefni; hvaða skorður setur samfélag nútímans umfjöllun af þessu tagi, er hægt að tala um „vont fólk og ljótt“ og komast upp með það innan fræðanna?

Laugardagur 10. mars

Hvar:
Stofu 201 í Lögbergi
Hvenær:
Kl. 13.00-16.30

Málstofustjóri: Sigurður Gylfi Magnússon


Fyrirlesarar og titlar erinda

10. mars kl. 13.00-14.30

Við hvaða aðstæður er fólk jaðarsett, jafnvel úthrópað og þokað til hliðar í samfélaginu – af þeim sem ráða? Í fyrirlestrinum verður enska hugtakið “normal exception” skoðað en það gerir ráð fyrir að þau sem af ýmsum ástæðum bindi bagga sína öðrum hnútum en samferðamennirnir geti verið í sínu daglega umhverfi bæði velmetnir og fullgildir meðlimir þess geira sem þau tilheyra. Kannað verður hvernig „fríkin“ verða til, hvernig skilgreinir samfélagið á hverjum tíma þá sem eru „öðruvísi“; fatlað fólk, geðsjúkt, blint og eða þá sem búa yfir óvenjulegum hæfileikum sem samfélagið tekur ekki gilda. Hvað ræður útskúfun fólks á hverjum tíma, sérstaklega á 19. og 20. öld?

Hvernig fjallar sagnfræðingur um jafn viðkvæmt efni og sögur af fólki sem er vont við annað fólk, viðkvæmt eða vanmáttugt? Nafngreinir maður það og rekur ættir þess? Hvaða þýðingu hefur það t.d. fyrir afkomendur þeirra? Getur verið að með því sé fræðimaðurinn að yfirfæra „illskuna“ á milli kynslóða? Rakin verður sagan af Kaprasíusi Guðmundssyni sem lenti í fádæma vanrækslu upp í Borgarfirði á áttunda áratug 19. aldar.

Árið 1905 voru sett ný fátækralög sem tóku gildi árið 1907 og giltu til ársins 1935. Litlar breytingar urðu á lögunum á gildistíma þeirra en framkvæmd fátækralaga í Reykjavík tók hins vegar talsverðum breytingum á lokaárum þriðja áratugarins og aukin harka færðist í meðferð þeirra þurfamanna sem taldir voru eiga sök á eigin vanda. Í fyrirlestrinum verður fjallað um meðferð fátækranefndar Reykjavíkur á þurfamanninum Ólafi í Hólakoti, sem var síðar minnst sem eins „skefjalausasta hroðamenni bæjarins“.

Í meðferð fátækrayfirvalda á Ólafi Sigurðssyni í Hólakoti, sem var á framfæri fátækranefndar frá upphafi aldarinnar til dánardags, má sjá hvernig bæjaryfirvöld reyndu að taka á slíkum mönnum á gildistíma fátækralaganna. Ólafur hafði á sér illt orð vegna ofbeldisverka og gruns um dýraníð.

10. mars kl. 15.00-16.30

Árið 1870 dó Þórný Jónsdóttir, þá kona Þórðar Jónssonar, bónda á Kistufelli í Lundarreykjadal. Við andlát hennar skrifuðu virðingarmenn upp dánarbú hennar sem gaf til kynna að bú þeirra hjóna hafi verið yfir meðallagi miðað við önnur bú á þessum tíma. En 13 árum síðar dó Þórður sem fátækur bóndi og skildi eftir sig fábreyttar eigur en engu að síður forvitnilega sögu sem þó eru litlar heimildir til um. Sagnaritarinn Kristleifur Þorsteinsson, lýsir honum sem „einhverri mestu skrípamynd af manni“ og lætur einnig fylgja að hann hafi ekki verið „fyllilega með öllum mjalla. Hvað í rauninni gerðist fyrir Þórð á þessum árum er ekki vitað en eitt er víst að á rúmum áratug breyttist búskapartíð hans til hins verra. Hér verður velt upp spurningum um hvernig „venjulegur“ bóndi til 33 ára fékk svo nöturleg eftirmæli og lifði á jaðarnum á síðustu árum sínum?

Í erindinu verður fjallað um þras, þrætur, átök og deilur í Miðfirði í Húnavatnssýslu á fyrri hluta 19. aldar. Byggt verður á nýlegri bók undirritaðs, Sakir útkljáðar: Sáttabók Miðfjarðarumdæmis í Húnavatnssýslu 1799-1865, og valin dæmi tekin til umfjöllunar þar sem áhersla er lögð á einstaklinga sem voru upp á kant við nærsamfélag sitt en jafnframt hvernig sáttanefndir, sem settar voru á fót hér á landi í lok 18. aldar, nýttust til þess að leysa ágreining og leitað svara við því hvort stofnun þeirra hafi verið réttarbót fyrir hina jaðarsettu í samfélaginu.

Samskipti og samspil hópa er spennandi viðfangsefni, hvort sem litið er til samtíma eða fortíðar. Einn af þeim hópum sem setti mikinn svip á íslenska sveitasamfélagið á fyrri öldum eru flakkarar og förufólk sem flæktust um sveitir landsins, í trássi við lög og reglur, en fengu samt húsaskjól. Förufólkið var hópur sem var skilgreindur af öðrum, en fæst þeirra vildu tilheyra. Í erindinu verður samfélagsleg staða hópsins tekin til skoðunar og þeirri spurningu velt upp hvað hægt sé að læra af sögu förufólksins, m.a. um viðhorf til hópa, fordóma og jaðarsetningu sem birtist með margvíslegum hætti.

Deila færslunni