Mannréttindi — fjölmenning — trú — loftslagsvá

In Málstofur by Margrét Guðmundsdóttir

Í málstofunni verður fengist við nokkrar helstu áskoranir samtímans, einkum fjölmenningu og loftslagsvá.

Í fjölmenningarsamfélögum nútímans reynir mjög á friðsamlega sambúð fólks með ólíkan menningar- og trúarlegan bakgrunn. Því verður í fyrri hluta málstofunnar fengist við þá útfærslu sem trúfrelsi hefur fengið hér á landi en einnig leitast við að draga fram ýmis atriði sem tálmað hafa þróun þess og hamla jafnvel enn framkvæmd þess. — Í síðari hluta málstofunnar verður vikið að yfirvofandi hamfarahlýnun út frá hugtakinu loftslagsréttlæti (e. climate justice). Það er samsett úr orðunum loftslagsbreytingar (e. climate change) og félagslegt réttlæti (e. social justice). Með notkun þess er ekki aðeins kallað eftir tæknilegum lausnum heldur líka réttlæti til handa þeim þolendum sem verða verst úti vegna breytinganna, konum og börnum. Í því sambandi má einnig nefna íbúa sérstaklega útsettra svæða sem er ekki síst að finna á norðurslóðum. Því verður athyglinni beint sérstaklega að þeim og fengist bæði við afleiðingar loftslagsvárinnar og illrar meðferðar, landráns og menningarníðslu gagnvart frumbyggjum norðursins sem staðið hefur fram á okkar daga. Sérstaklega verður það gert út frá hugtakinu díakonía sem er notað um samfélagslega þjónustu kirkjunnar við einstaklinga, jaðarsetta hópa og sköpunarverkið í heild.

Nálgunin í málstofunni verður guðfræði- og trúarbragðafræðileg. Því verður í upphafi hennar varpað fram spurningunni: „Hvað er trú?“ Verður henni svarað með skírskotun til kenninga breska trúarlífsfélagsfræðingsins Linda Woodheads og leitast við að varpa ljósi á fjölbreytilega merkingu trúarhugtaksins, nánar tiltekið, trú sem menningu, sjálfsmynd, tengsl, iðkun og vald.

Málstofan tengist þverfaglegu rannsóknarverkefni sem Guðfræðistofnun hefur hleypt af stokkunum undir titlinum: Mannréttindi — fjölmenning — trú — loftslagsvá.

Mynd: European Greens, Wikimedia Commons.

Hugvísindaþing 11.-12. mars 2022

Hvar
Stofa 310 í Árnagarði
Hvenær
12. mars kl. 10.00-12.00

Málstofustjóri:
Hjalti Hugason


Fyrirlesarar og titlar erinda

12. mars kl. 10.00-12.00 í stofu 310 í Árnagarði

[fblike]

Deila færslunni


Fleiri málstofur