Rómverjar og „hinir“

In Málstofur by Margrét Guðmundsdóttir

Málstofan, sem er haldin á vegum Fornfræðistofu, er þverfagleg og inniheldur þrjú erindi sem eiga það sameiginlegt að einblína á samband Rómverja og annarra sem þeim tengdust á einn eða annan hátt. Í fyrsta erindinu er sjónum beint að fjórðu bók Propertiusar. Þar er að finna kvæði um hina rómversku þjóðsagnapersónu Tarpeiu en með kvæðinu tekur Propertius á ef til vill svolítið djarfan hátt á pólitískum atburðum samtíma síns. Í erindinu er gerð tilraun til að skyggnast undir grímu Tarpeiu til að sjá hvað þar er að finna. Annað erindið fjallar um félagslegar aðstæður og híbýli gyðinga og kristinna í Róm á fyrstu öld. Þegar hin gyðinglega Jesúhreyfing tók að skjóta rótum í Róm á fyrstu öld voru gyðingar og síðar kristnir almennt taldir meðal framandi hópa í borginni. En hvar í borginni bjuggu gyðingar og kristnir og hvernig voru híbýli þeirra? Var munur á gyðingum og kristnum að þessu leyti? Hvað segja þessir þættir okkur um tengsl þessara hópa við mismunandi stéttir Rómverja? Í þriðja erindinu verður einblínt á kristna sagnaritunarhefð í síðfornöld þar sem sigurganga kristni á 4. öld var tengd viðgangi Rómarveldis, en helsti boðberi hennar var Eusebios frá Caesareu. Fjallað verður um kreppu þessarar söguskoðunar við upphaf „þjóðflutningatímans“ á fimmtu öld þegar Augustinus var boðberi annarrar sýnar á sögu kristninnar. Að lokum verður litið á nokkur dæmi úr íslenskri veraldarsögu sem er fulltrúi alþjóðlegrar hefðar að þessu leyti.

Hugvísindaþing 11.-12. mars 2022

Hvar
Stofa 106 í Odda
Hvenær
12. mars kl. 15.00-16.30

Málstofustjóri:
Rúnar M. Þorsteinsson


Fyrirlesarar og titlar erinda

12. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 106 í Odda

[fblike]

Deila færslunni