Sjálfsævisaga „fávita“

In Málstofur by Margrét Guðmundsdóttir

Vorið 2022 kemur út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar verk sem Bjargey Kristjánsdóttir, sem vanalega gekk undir nafninu Bíbí í Berlín, ritaði. Bíbí var fædd á kotbýlinu Berlín rétt fyrir utan Hofsós árið 1927 og var úrskurðuð fljótlega á fyrsta ári „fáviti“ eins og það var nefnt á fyrri hluta 20. aldar. Eftir lát móður sinnar, þegar Bíbí var um þrítugt, var hún flutt gegn vilja sínum á elliheimilið á Blöndósi. Þar dvaldi hún í tæp 20 ár eða þar til að hún flutti inn í þorpið þar sem hún bjó í skjóli vina um hríð en endaði ævi sína á elliheimilinu þar sem hún lést árið 1999.

Bíbí lét eftir sig 120 þúsund orða sjálfsævisöguhandrit (meðalstærð bókarhandrita er 90 þúsund orð) sem hún hafði unnið að mestu í einrúmi, hélt leyndu fyrir fjölskyldu sinni og samferðarfólki og fáir vissu um tilvist þess. Viðfangsefni þessarar málstofu verður handritið sjálft; hvers konar verk er þessi sjálfsævisaga, hvers konar rannsókn býður hún upp á á högum þroskaskertrar manneskju á 20. öld og hverjir eru efnisþættirnir sem þar er bryddað upp á? Bókin kemur út með ítarlegum inngangi Guðrúnar Valgerðar Stefánsdóttur prófessors í fötlunarfræði við Menntavísindasvið. Að verkinu standa auk hennar þau Sólveig Ólafsdóttir doktorsnemi í sagnfræði og Sigurður Gylfi Magnússon prófessor í sagnfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands en þau þrjú fengu þriggja ára verkefnisstyrk frá Rannís árið 2021 til að rannsaka sögu Bíbíar.

Hugvísindaþing 11.-12. mars 2022

Hvar
Stofa 301 í Árnagarði
Hvenær
11. mars kl. 15.00-17.00

Málstofustjóri:
Sigurður Gylfi Magnússon


Fyrirlesarar og titlar erinda

11. mars kl. 15.00-17.00 í stofu 301 í Árnagarði

 

Deila færslunni